Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 152 . mál.


Nd.

164. Frumvarp til laga



um flutning Lyfjatæknaskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands til menntamálaráðuneytisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     15. gr. laga nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, með síðari breytingu, orðist svo:
     Menntamálaráðuneytið starfrækir við framhaldsskóla nám í lyfjatækni í samvinnu við samtök lyfsala. Menntamálaráðherra setur með reglugerð ákvæði um námið og tilhögun þess.
     Lyfjabúðum er skylt samkvæmt nánari ákvörðun heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra í reglugerð að vista lyfjatækninema til verklegs náms.
     Heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra getur með reglugerð sett ákvæði um starfsréttindi lyfjatækna, svo og annars afgreiðslu - og aðstoðarfólks í lyfjabúðum og öðrum stofnunum sem afgreiða, framleiða eða selja lyf í heildsölu.

2. gr.


     1. mgr. 2. gr. laga um sjúkraliða, nr. 58/1984, með síðari breytingum, orðist svo:
     Leyfi skv. 1. gr. má veita þeim sem lokið hafa námi frá skóla hér á landi sem heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið viðurkennir.
     4. mgr. 5. gr. laga um sjúkraliða, nr. 58/1984, eins og greininni var breytt með lögum nr. 73/1989, fellur niður.

3. gr.


     Í 2. gr. laga nr. 40/1985, um Þroskaþjálfaskóla Íslands, komi: menntamálaráðherra í stað „heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra“.

4. gr.


     Við 6. gr. laga nr. 35/1964, um Ljósmæðraskóla Íslands, bætist nýr málsliður svohljóðandi:
     Lög þessi falla úr gildi 31. desember 1992.

5. gr.


     2. gr. 1. mgr. ljósmæðralaga, nr. 67/1984, orðist svo:
     Leyfi skv. 1. gr. má veita þeim sem lokið hafa námi frá skóla hér á landi sem heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið viðurkennir.

6. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1991. Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella þau inn í meginmál þeirra laga sem þau breyta og gefa þau lög út svo breytt.

A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a .


    Fjórir skólar heilbrigðisstétta eru nú reknir af heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytinu: Ljósmæðraskóli Íslands, Lyfjatæknaskóli Íslands, Sjúkraliðaskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands. Ráðuneytið hefur verið þeirrar skoðunar að rekstur skóla væri á verksviði menntamálaráðuneytisins.
    Á síðustu árum hefur verið boðið upp á sjúkraliðanám í fjölbrautaskólum. Heilbrigðisráðuneytið telur því að ekki sé lengur þörf á Sjúkraliðaskóla Íslands og hefur skólinn því verið lagður niður frá og með 1. nóvember 1990 og verða fjárframlög o.fl. er tengist skólanum flutt yfir til menntamálaráðuneytis miðað við þá dagsetningu.
    Samkomulag hefur náðst milli heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra um að menntamálaráðuneytið taki við yfirstjórn og rekstri náms lyfjatækna, sjúkraliða og þroskaþjálfa. Hefur verið miðað við að þessi breyting verði 1. júlí 1991. Gert er ráð fyrir að framlög á fjárlögum ársins 1991 hvað snertir lyfjatækna og þroskaþjálfa flytjist milli ráðuneytanna sem þessu nemur, svo og eigur skólanna, samningar um húsaleigu, ráðningarsamningar o.fl.
    Jafnframt hafa heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra samið um að að heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið leggi niður Ljósmæðraskóla Íslands á árinu 1992. Ákveðið hefur verið að sá hópur, sem hóf nám í haust, verði síðasti hópurinn sem lýkur námi frá skólanum. Þessi hópur mun ljúka námi vorið 1992. Mun heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið leggja starfsemi skólans niður í framhaldi af því. Á vegum menntamálaráðuneytisins er hafin athugun á framtíðarskipan ljósmæðranáms og hugsanlegum tengslum þess við námsbraut í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands.
    Af hálfu menntamálaráðuneytisins er fyrirhugað að kennsla sjúkraliða og lyfjatækna verði tengd framhaldsskólum sem fyrir eru en að Þroskaþjálfaskóli Íslands starfi áfram sem sérstök stofnun.
    Til að framangreindar breytingar á yfirstjórn og tilhögun náms ljósmæðra, lyfjatækna, sjúkraliða og þroskaþjálfa geti komist í kring þarf að breyta fimm lögum.
    Frumvarp þetta var lagt fram í lok síðasta þings en ekki vannst tími til að afgreiða það. Fyrir því er það lagt fram óbreytt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þessi breyting snertir Lyfjatæknaskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að Lyfjatæknaskóli Íslands flytjist yfir til menntamálaráðuneytisins og mun hann verða sérstök námsbraut innan framhaldsskólakerfisins.

Um 2. gr.


     Þessi grein fjallar um nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða, vegna þess að Sjúkraliðaskóli Íslands hefur verið lagður niður.

Um 3. gr.


     Hér er gerð sú breyting á 2. gr. laga nr. 40/1985, um Þroskaþjálfaskóla Íslands, að í stað heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra komi menntamálaráðherra.

Um 4. gr.


     Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið hefur ákveðið að Ljósmæðraskóli Íslands verði lagður niður. Því er hér gert ráð fyrir að lög um Ljósmæðraskóla Íslands, nr. 35/1964, falli úr gildi 31. desember 1992.


Um 5. gr.


     Þessi grein fjallar um nauðsynlegar breytingar á ljósmæðralögum, nr. 67/1984, vegna þess að Ljósmæðraskóli Íslands verður lagður niður.

Um 6. gr.


     Rétt þykir að gera það skilyrði að þegar lögin hafa hlotið staðfestingu verði breytingar þær, sem þau fela í sér, felldar inn í meginmál þeirra laga sem þau breyta og þau lög gefin út þannig breytt.